Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni. Hættumat Veðurstofunnar verður uppfært fyrir lok dags á morgun og verða þá veittar upplýsingar um þróun mála einnig uppfærðar.
„Um 80 skjálftar mældust á svæðinu í kringum kvikuganginn í gær, 15. maí, flestir undir 1,0 að stærð. Þetta er svipuð skjálftavirkni og mælst hefur síðustu daga, en um 50 til 80 skjálftar hafa mælst á sólarhring, flestir þeirra á svæðunum milli Stóra-Skógfells og Hagafells annars vegar og sunnan Þorbjarnar hins vegar. Merki um nýtt kvikuhlaup væru líkt og áður, staðbundin smáskjálftahrina í og við kvikuganginn, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi og rís land þar með sama hraða og áður. Að svo stöddu er ekki ástæða til að áætla annað en að áfram séu auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og öðru eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni næstu daga.
Í fyrri kvikuhlaupum og eldgosum hafa um 8 til 13 milljónir rúmmetra bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi milli atburða áður en kvikan hleypur úr kvikuhólfinu yfir í Sundhnúksgígaröðina. Nú er magn kviku sem bæst hefur við komið upp fyrir efri mörkin, en alls hafa um 16 milljónir rúmmetra að kviku bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi frá 16. mars, þegar að síðast gos hófst.
Reynslan frá Kröflueldum sýnir að eftir því sem kvikuhlaupum fjölgar þarf meiri þrýsting til að koma þeim af stað. Því verður að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina, en nokkur óvissa er um hvenær nægilegum þrýstingi verður náð til að koma nýju kvikuhlaupi af stað og að kvika nái til yfirborðs,“ segir í tilkynningunni.
