Innlent

Efstar með ómarktækan mun á milli sín

Jón Þór Stefánsson skrifar
Halla Hrund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir í Pallborðinu á dögunum.
Halla Hrund Logadóttir og Katrín Jakobsdóttir í Pallborðinu á dögunum. Vísir/Vilhelm

Halla Hrund Logadóttir mælist með mest fylgi í nýrri skoðanakönnun Maskínu. Katrín Jakobsdóttir kemur á hæla henni, en ómarktækur munur er á þeim tveimur. Þar á eftir koma Baldur Þórhallsson og Jón Gnarr, en marktækur munur er á stuðningi við Katrínu og Baldur annars vegar og við Baldur og Jón hins vegar.

Halla Hrund mælist með 29,7 prósenta stuðning samkvæmt könnuninni. Katrín Jakobsdóttir er með 26,7 prósent, Baldur með 18,9 prósent, og Jón Gnarr með 11,2 prósent.

Þar á eftir koma Halla Tómasdóttir, sem er með 5,4 prósent, Arnar Þór Jónsson með 4,2 prósent, og síðan Ásdís Rán Gunnarsdóttir með 1,2 prósent.

Aðrir frambjóðendur mælast með minna en eins prósent stuðning. Um er að ræða fyrstu könnuna þar sem spurt er út í stuðning við Viktor Traustason, en hann mælist með 0,6 prósent.

Könnunin fór fram dagana 30. Apríl til 8. maí 2024 og voru svarendur 1.236 talsins.

Svarendur voru spurðir út í hvern þeir myndu kjósa væri sá sem þau styðja nú væri ekki í framboði. Þá mældist Baldur Þórhallsson efstur með 22,1 prósent, Halla Hrund næst með 21,2 prósent, síðan Katrín með 14,5 prósent og Jón með álíka mikið, 14,3 prósent. Halla Tómasdóttir er ekki langt undan með 11,8 prósent.

Þá var spurt út í hvern af þeim efstu fjórum (Höllu, Katrínu, Baldri og Jóni) viðkomandi myndi síst vilja kjósa. Af þeim sem tóku afstöðu til málsins vildu flestir síst kjósa Katrínu, eða 41,6 prósent, næstur mælist Jón með 32,4 prósent. Síðan er Baldur með 14,3 prósent og Halla Hrund með 11,8 prósent.

Heimir Már Pétursson fréttamaður ræddi um niðurstöður þessarar kannanar í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×