Chelsea vann 5-0 sigur á West Ham í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni og komst fyrir vikið upp fyrir Manchester United í töflunni.
Chelsea og United eru með jafnmörg stig í sjöunda til áttunda sæti en Chelsea er með mun betri markatölu. Chelsea hefur ekki verið ofar á tímabilinu.
Eftir þetta tap eru West Ham menn í níunda sæti, nú fimm stigum á eftir liðunum fyrir ofan sig.
Þetta er annar sigur Chelsea á Lundúnaslag á stuttum tíma eftir að hafa unnið Tottenham 2-0 í vikunni. Sjö mörk og sex stig er frábær uppskera fyrir lærisveina Mauricio Pochettino.
Þetta var stærsti sigur Chelsea á West Ham í efstu deild á Englandi.
Chelsea skoraði þrjú mörk í fyrri hálfleiknum en hefði líka getað fengið á sig mark því West Ham skutu tvisvar í slá Chelsea marksins.
Cole Palmer kom Chelsea í 1-0 á 15. mínútu þegar boltinn datt fyrir hann í teignum og Conor Gallagher skoraði annað markið fimmtán mínútum síðar.
Þriðja markið skoraði síðan Noni Madueke á 36. mínútu eftir skallasendingu frá Thiago Silva.
Seinni hálfleikurinn byrjaði síðan frábærlega fyrir Chelsea þegar Nicolas Jackson skoraði í tómt markið eftir óeigingjarna sendingu frá Noni Madueke.
Chelsea innsiglaði síðan sigurinn á 80. mínútu þegar Jackson skoraði sitt annað mark í leiknum, nú eftir stungusendingu frá Moisés Caicedo.
Brighton vann 1-0 sigur á Aston Villa í leik sem hófst á sama tíma. Það var mark dæmt af Brighton áður en Joao Pedro skoraði sigurmarkið. Hann lét þá Robin Olsen verja frá sér víti en fylgdi síðan á eftir.