Handbolti

„Ég sakna hennar á hverjum degi“

Aron Guðmundsson skrifar
Systkinin á góðri stundu. Arnór Þór hér lengst til vinstri og Tinna Björg, sem lést á síðasta ári, hægra megin í miðjunni.
Systkinin á góðri stundu. Arnór Þór hér lengst til vinstri og Tinna Björg, sem lést á síðasta ári, hægra megin í miðjunni. Aðsend mynd.

Arnór Þór Gunnars­son, fyrr­verandi lands­liðs­maður í hand­bolta og nú­verandi þjálfari þýska úr­vals­deildar­fé­lagsins Bergischer, segir tímann sem liðið hefur frá and­láti eldri systur hans, Tinnu Bjargar Mal­mquist Gunnars­dóttur, hafa verið mjög erfiðan. Hann hugsar á hverjum degi til systur sinnar. Tekur á móti krefjandi dögum en einnig gleði­dögum. Á þeim dögum standi það sterkt hversu góða mann­eskju Tinna Björg hafði að geyma.

Tinna Björg, sem lést í septem­ber á síðasta ári, var eldri systir Arnórs Þórs. Stórt skarð var höggvið í líf fjöl­skyldunnar með hennar and­láti og við hafa tekið krefjandi tímar þar sem að fjöl­skyldan hefur þurft að fóta sig í nýjum veru­leika.

„Þetta hefur verið mjög erfitt,“ segir Arnór Þór um tímann sem hefur liðið frá and­láti Tinnu Bjargar. „Mikill rússí­bani. Það er erfitt að lýsa þessum tíma. Tíma sem snertir okkur öll í fjöl­skyldunni. Það koma dagar sem eru rosa­lega erfiðir. Ég verð að viður­kenna það. Ég sakna hennar á hverjum degi.

Dagarnir eru mis­jafnir. Það koma virki­lega vondir og erfiðir daga. En maður upp­lifir líka mikla gleði­daga inn á milli og þá hugsar maður oft um hana. Hvernig hún var. Hvaða mann­eskju hún hafði að geyma. Maður hefur frá­bæra konu og börn sér við hlið hérna úti í Þýska­landi og náttúru­lega fjöl­skyldu heima á Ís­landi sem tekur utan um mann þegar að dagarnir eru eins og þeir eru stundum. Það er maður virki­lega þakk­látur fyrir.“

Hand­boltinn og starfið hjá Bergischer hafi virkað sem gott hald­reipi í gegnum þennan erfiða tíma. Þar hefur Arnór haft í nógu að snúast. Hann lagði skóna á hilluna fyrir yfir­standandi tíma­bil og tók að sér þjálfara­stöðu hjá Bergischer, fé­laginu sem hann hafði verið á mála hjá síðan árið 2012.

Arnór Þór nýtur góðs stuðnings fjölskyldu sinnar úti í ÞýskalandiAðsend mynd

„Það er gott að geta farið og hugsað ein­göngu um hand­bolta. Það er það sem hefur hjálpað manni mikið í gegnum þennan tíma. Að geta mætt á æfingu og farið í leiki. Í vetur hef ég svo fengið tæki­færi til þess að þjálfa yngri flokka sam­hliða störfum mínum með aðal­liðinu. 

Þar fyllist maður inn­blæstri af kraftinum og ást­ríðunni hjá þessum ungu krökkum sem vilja það svo mikið að ná langt í í­þróttinni. Maður sér það í augunum á þeim. Það gefur manni þann inn­blástur að vilja gera sitt allra besta í að hjálpa þeim í því að verða betri. Það hefur hjálpað mér gríðar­lega í vetur.“

En þó sé mikil­vægt að minna sig á það að lífið er miklu meira en bara hand­bolti.

„Fjöl­skyldan er náttúru­lega alltaf númer eitt, tvö og þrjú. Hand­boltinn kemur þarna ein­hvers staðar á eftir í ein­hverju sæti. Hand­boltinn er ekki allt. Maður lenti kannski í því oft sem leik­maður, og það er á­byggi­lega upp­lifun annarra líka, að gleyma því svo­lítið. Maður vildi svo mikið komast eins langt og mögu­legt var sem leik­maður og gleymdi því stundum á sama tíma hvernig lífið virkar.“


Tengdar fréttir

Arnór stökk til: „Hugsaði að við hefðum engu að tapa“

Arnór Þór Gunnars­son, fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta, þurfti að hafa hraðar hendur þegar að kallið kom frá fé­laginu sem hefur verið hluti af lífi hans í yfir ára­tug núna. Hann er tekinn við þjálfun þýska úr­vals­deildar­liðsins Bergischer út yfir­standandi tíma­bil og byrjar vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×