Fótbolti

Meistara­þynnka Le­verku­sen entist ekki og liðið enn tap­laust

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Robert Andrich fagnar jöfnunarmarki sínu sem kom sjö mínútum eftir að venjulegum leiktíma lauk.
Robert Andrich fagnar jöfnunarmarki sínu sem kom sjö mínútum eftir að venjulegum leiktíma lauk. EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen lentu 0-2 undir gegn Stuttgart í dag en tókst að bjarga sér fyrir horn. Lokatölur 2-2 og Leverkusen því enn taplaust í öllum keppnum á leiktíðinni.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu gestirnir tvívegis á tíu mínútna kafla. Chris Führich skoraði fyrra markið á 47. mínútu og Deniz Undav það síðara tíu mínútum síðar. Virtist sem heimamenn væru loks að fara tapa leik en liðið hefur ótrúlegt en satt ekki enn tapað leik á leiktíðinni. 

Amine Adli minnkaði muninn skömmu síðar eftir sendingu Alejandro Grimaldo. Það var svo þegar sjö mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sem Robert Andrich jafnaði metin eftir undirbúning Piero Hincapié.

Lokatölur 2-2 og meistarar Leverkusen nú leikið 46 leiki án þess að tapa. Leverkusen er nú með 81 stig á meðan Stuttgart er í 3. sæti með 64 stig.

Önnur úrslit voru þau að Bayern München vann 2-1 sigur á Eintracht Frankfurt þökk sé tvennu frá Harry Kane. Bayern er sem fyrr í 2. sæti, nú með 69 stig. Frankfurt er í 6. sæti með 45 stig.

Þá vann RB Leipzig 4-1 sigur á Borussia Dortmund. Jadon Sancho kom Dortmund yfir en Lois Openda, Benjamin Šeško, Mohamed Simakan og Christoph Baumgartner svöruðu fyrir RB.

Leipzig er í 4. sæti með 62 stig en Dortmund er sæti neðar með 57 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×