Handbolti

Arnór stökk til: „Hugsaði að við hefðum engu að tapa“

Aron Guðmundsson skrifar
Arnór Þór fagnar einu marka sinna manna í síðasta leik gegn Balingen
Arnór Þór fagnar einu marka sinna manna í síðasta leik gegn Balingen Mynd: Bergischer

Arnór Þór Gunnars­son, fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta, þurfti að hafa hraðar hendur þegar að kallið kom frá fé­laginu sem hefur verið hluti af lífi hans í yfir ára­tug núna. Hann er tekinn við þjálfun þýska úr­vals­deildar­liðsins Bergischer út yfir­standandi tíma­bil og byrjar vel.

„Þetta var mjög stuttur fyrir­vari sem maður fékk,“ segir Arnór í sam­tali við Vísi. „Á þriðju­daginn í síðustu viku fékk ég sím­tal eftir æfingu. Hinu megin á línunni var fram­kvæmda­stjóri fé­lagsins og hann boðaði mig á fund með sér. Klukkan var eitt­hvað um hálf tvö þegar að ég fæ sím­talið. Við höfðum verið með æfingu klukkan tíu fyrr um daginn.

Ég mæti á um­ræddan fund. Við tölum saman í svona hálf­tíma og svo segir hann mér að fé­lagið ætli sér að láta þá­verandi þjálfara sinn fara. Og hvort ég hefði hug á því að stíga inn og taka við þjálfun liðsins út tíma­bilið. Þannig var nú að­dragandinn að þessu. Þetta voru fjöru­tíu og fimm mínútur.“

Vendingar sem Arnór Þór var sjálfur ekki að búast við.

„Ég hélt að ég væri að fara á fund sem myndi snúast um næsta tíma­bil hjá okkur. Fundar­efnið yrði leik­menn liðsins. Hvað okkur vantaði fyrir næsta tíma­bil, sama í hvaða deild við myndum spila. Þetta kom því á ó­vart. Ég verð að segja það.“

Bergischer hefur átt fastan stað í lífi Arnórs Þórs síðan árið 2012 er hann hóf að spila með liðinu sem leik­maður. Þar spilaði hann í yfir ára­tug við góðan orð­stír en lagði svo skóna á hilluna eftir síðasta tíma­bil og tók í kjöl­farið við stöðu í þjálfara­t­eymi Bergischer.

Arnór Þór fagnar í leik með Bergischer á sínum tíma sem leikmaður félagsins.mynd/bergischer

Það reyndist honum erfitt að hafna boði um að taka við þjálfun Bergischer út tíma­bilið. Honum rann blóðið til skyldunnar að reyna hjálpa því hið minnsta út tíma­bilið. Reyna að gera at­lögu að því að tryggja veru þess í þýsku úr­vals­deildinni.

„Ég hafði náttúru­lega lítinn tíma að hugsa. Hef verið innan raða fé­lagsins í rúm tólf ár. Það var erfitt fyrir mig að segja nei á þessum tíma­punkti. Ég hugsaði með mér að við hefðum engu að tapa.“

Eftir að hafa tekið við starfinu þurfti Arnór Þór að hafa hraðar hendur. Það var stutt í næsta leik. Fall­bar­áttuslag af bestu gerð við Ís­lendinga­lið Ballin­gen. Sigur þar fyrir lið Bergischer, sem hafði ekki unnið leik síðan um miðjan desember á síðasta ári og tapað tólf leikjum í röð, var nauð­syn­legur til að halda lífi í trúnni á að Bergischer myndi halda sæti sínu í þýsku úr­vals­deildinni.

„Ég tek þarna við starfinu á þriðju­degi og held að ég hafi saman­lagt sofið í um þrjár klukku­stundir að­fara­nótt mið­viku­dagsins. Svo var æfing klukkan tíu um morguninn daginn eftir. Við tókum liðs­fund fyrir hana og þar var talað um hvernig næstu tveir dagar yrði. Tíminn var naumur en við vorum búnir að klippa til mynd­bönd af Ballin­gen.

Mynd: Bergischer

Það var stuttur fyrir­vari á öllu en strákarnir í liðinu gáfu út frá sér því­líka já­kvæða orku þarna strax í byrjun. Það róaði mig rosa­lega. Svo á æfingu á fimmtu­deginum, degi áður en við héldum til Ballin­gen, fann ég að það væri eitt­hvað gott að fara gerast. Þessir tveir dagar sem við áttum með liðinu fram að þessum leik voru hrein­lega lyginni líkast.

Sóttu mikil­vægan sigur

Svo fór að Bergischer vann sinn fyrsta leik undir stjórn Arnórs Þórs. Mikil­vægan sigur gegn Balin­gen á úti­velli.

„Fyrri hálf­leikur var mjög jafn. Þeir voru einu marki yfir í hálf­leik en mér fannst við hins vegar að spila frá­bæra vörn. Við vorum hins vegar að­eins staðir sóknar­lega. En í hálf­leik ræddum við vel saman. Vörnin varð enn þá betri í seinni hálf­leik. Ég fann að strákarnir voru virki­lega klárir og þeir kláruðu leikinn fag­mann­lega með sigri.

Gleðin var mikil hjá leikmönnum og þjálfurum Bergischer í leikslok.Mynd: Bergischer

Svo eftir leik tók geðs­hræringin við hjá öllum sem standa að liðinu. Ekki síður okkur þjálfurunum. Við fögnuðum með þeim stuðnings­mönnum okkar sem höfðu gert sér ferð til Ball­lin­gen. Svo fór ég bara inn í klefa og fékk þessa til­finningu aftur. Til­finninguna sem að um­vefur mann eftir sigur­leik. Það var geggjað. Svo þegar að strákarnir komu inn í klefa. Þá sá maður brosin á and­litum þeirra. Það gefur manni rosa­lega mikið.“

Sigur­til­finningin gleymist seint.

„Sem leik­maður Bergischer lenti ég einu sinni í því að tapa ein­hverjum tíu leikjum í röð. Það var mjög erfitt. Strákarnir höfðu núna tapað tólf leikjum í röð og ég gat því að ein­hverju leiti sett mig í þeirra spor eftir sigurinn gegn Ballin­gen. Hverju þeir voru að finna fyrir. Til­finningin sem að brýst út í bland við léttinn að hafa bundið enda­hnútinn á tap­hrinu. Við á­kváðum að gefa þeim frí í kjöl­farið. Leyfa bæði þeim og mér að koma sér niður.“

Kampakátur Arnór Þór eftir fyrsta sigur Bergischer í tólf leikjumMynd: Bergischer

„Þetta er hins vegar bara einn leikur. Stað­reyndin er enn sú að við erum í fall­sæti og þurfum að ein­beita okkur að næsta leik. Fyrir okkur sem lið, Bergischer. Það er ekkert annað í stöðunni en að hugsa bara um næsta leik og sjá hvernig þetta þróast allt. Við erum búnir að koma okkur í þessa stöðu sjálfir.

Bergicher er fjórum stigum frá öruggu sæti í þýsku úr­vals­deildinni þegar að fimm um­ferðir eftir lifa af deildar­keppninni. Hver leikur til loka tíma­bils er úr­slita­leikur.

Býr trúin í liðinu? Að það geti haldið sæti sínu í deildinni?

„Já mér fannst það skína í gegn strax eftir sigurinn gegn Ballin­gen. Oft þarf bara eitt­hvað svona, einn sigur, til að maður komist í ein­hvern takt. Við eigum leik á sunnu­daginn gegn Erlangen. Ef sá leikur fer vel erum við tveimur stigum á eftir þeim. Ég hef trú á þessum strákum. Æfði með þeim flestum á bæði síðasta og þar síðasta tíma­bili. Ég veit alveg hvað þeir kunna í hand­bolta og hef ó­bilandi trú á þessum gaurum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×