Sveindís meiddist í fyrri hálfleik þegar liðsfélagi hennar úr stórliði Wolfsburg, Kathrin Hendrich, braut á henni.
„Brotið var vissulega hart og ljótt. Hún tekur hana bara illa niður og Sveindís lendir illa,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari meðal annars um brotið.
Glódís Perla Viggósdóttir landsliðsfyrirliði gekk lengra í viðtali við Fótbolta.net og sagði: „Þetta var viljandi. Mér fannst þetta ógeðslega ljótt brot.“
Getur spilað fyrr en búist var við
Sveindís slapp þó við beinbrot og fór ekki úr axlarlið, en hún greinir frá því á Instagram að tvö liðbönd í öxlinni hafi rofnað. „En sem betur fer mun ég geta spilað aftur fyrr en búist var við,“ skrifaði Sveindís og þakkaði fyrir öll skilaboðin sem henni hafa borist undanfarið. Hún tók hins vegar ekki fram hve lengi væri búist við að hún yrði frá keppni.

Sveindís missti af nánast öllum fyrri hluta tímabilsins, og þar með öllum sex leikjum Íslands í Þjóðadeildinni fyrir áramót, vegna meiðsla. Hún hefur því aðeins leikið átta deildarleiki fyrir Wolfsburg í vetur.
Sveindís er vitaskuld ekki í liði Wolfsburg sem mætir Freiburg í dag í þýsku 1. deildinni í fótbolta, en þar eru möguleikar Wolfsburg á titli nánast úr sögunni eftir tapið stóra gegn Bayern München í síðasta mánuði. Bayern hefur nú sjö stiga forskot þegar fimm umferðir eru eftir.
Styttist í bikarúrslitaleik og leiki um EM-sæti
Núna er hins vegar spurning hvort Sveindís geti mögulega tekið þátt í bikarúrslitaleiknum gegn Bayern 9. maí, en ekki liggur fyrir hve lengi hún verður frá keppni.
Næstu landsleikir Íslands eru svo tveir afar mikilvægir leikir við Austurríki, 31. maí ytra og 3. júní á Íslandi, en þeir leikir gætu skorið úr um hvort liðanna kemst beint inn á EM 2025 í Sviss.
Ísland er í þeirri stöðu eftir að hafa byrjað undankeppnina á 3-0 sigri gegn Pólverjum, þar sem Sveindís skoraði sitt tíunda landsliðsmark en hún hefur leikið 36 A-landsleiki.