Kosningastjóri Helgu, Tryggi Rafnsson, sendi Vísi skeyti þar sem segir að farið hafi verið yfir málin að teknu tilliti til þess sem fram kom í frétt Vísis af málinu, en sú frétt birtist í gær.
„Þar sem talað er um að Helga Þórisdóttir hafi ekki farið að persónuverndarlögum. Þetta kom Helgu í opna skjöldu og var strax farið yfir þær auglýsingar sem eru í birtingu. Auglýsingin sem um ræðir býður fólki að kynnast Helgu betur og vísar hún inn á vefinn www.helgathorisdottir.is. Á vefnum var ekki samþykki fyrir vefkökum og hefur það verið lagfært. Á vefnum hefur einungis safnast tölfræði um hvaðan fólk er að koma inn á vefinn, þ.e. frá vefborða eða í gegnum leit,“ segir Tryggvi.

Hann tekur jafnframt fram að framboð Helgu noti ekki Meta Pixel. „Fyrir þau sem ekki vita þá er Meta Pixel kóði til að setja á vefsíður til að fylgjast með því hvernig fólk hegðar sér eftir að hafa smellt á t.d. Facebook auglýsingar, hvað það gerir á vefnum og hvernig auglýsingar frá viðkomandi birtast héðan af.“
Tryggvi vill því árétta að um afar almennar auglýsingar sé að ræða, og vefkökur voru ekki notaðar í þeim tilgangi að fylgjast með fólki á Netinu.
„Allar samfélagsmiðlaauglýsingar á vegum framboðs Helgu eru merktar þannig að auglýsingin sé vegna framboðs Helgu Þórisdóttur, og eru þær með fyrirvara um að auglýsingin sé vegna kosninga.“
Tryggvi segir að framboð Helgu þakki allar góðar ábendingar og vonar að önnur framboð séu að starfa í samræmi við persónuverndarlög.