Þetta kom fram í Pallborðinu á Vísi í dag, en þar ræddi Andrés um forsetakapallinn sem nú er í fullum gangi, ásamt Helgu Völu Helgadóttur, lögmanni og fyrrverandi alþingismanni og Ólafi Þ. Harðarsyni prófessor emeritus í stjórnmálafræði.
„Það sem var áhugavert með Jón Gnarr og hans ávarp er að hann ætlar sér greinilega að gera þetta af alvöru. Vegna þess að ávarpið talaði ekkert til unga fólksins eða þeirra sem eru hefðbundnir aðdáendur Jóns Gnarr. Hann var ekki með neina kerskni eða kímni í þessu," sagði Andrés um ávarp Jóns, þar sem hann kynnti forsetaframboð sitt.
„Þetta ávarp snerist um það að taka af honum trúðsímyndina og segja: „Heyrðu, ég get verið stofuhæfur á Bessastöðum. Ég get líka verið forseti ykkar sem finnst ég vera of mikil fígúra.“ Hann er að reyna að færa sig, og breikka sig fyrst, svo held ég að hann verði með sína styrkleika í sjónvarpssal og á samfélagsmiðlum.“
Helga Vala tók undir þessi orð Andrésar. „Ávarpið hans kom mér á óvart. Hann sýndi mikla mennsku og hlýju. Hann sýndi virðingu fyrir embættinu án þess að maður fengi það á tilfinninguna að hann væri eitthvað að grínast með það. Mér fannst þetta bara svolítið flott hjá honum.“
Hún segir greinilegt að ávarpið hafi verið úthugsað og minnist á að sér hafi fundist smart að taka myndbandið upp í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.
Þá hafi Helga heyrt frá fólki sem hafi unnið með Jóni segja að hann megi aldrei vanmeta. „Þegar farið er aðeins út fyrir menntaða kjarnann þá bara talar hann beint inn í hjartað á fólki. Við skulum spyrja að leikslokum.“
Andrés minnist þá, líkt og áður segir, á veikleika ofurhetjunnar Súperman, sem er kryptónít. Hann veltir fyrir sér hvort Jón sé mögulega kryptónít Katrínar.
„Katrín er með þessa fullkomnu forsetaímynd. Við erum frá því að við kynntumst henni getað mátað hana við Bessastaði. Ef það er eitthvað sem getur sett hana úr jafnvægi og truflað þessa ímynd þá er það þegar hún er borin saman við Jón Gnarr,“ segir Andrés.
„Ég held að hún hafi ekkert endilega fagnað því að hann hafi komið fram. En ég held nú samt að hún sé auðvitað sigurstranglegri.“