Fótbolti

Svekkjandi tap hjá Sveindísi og Wolfsburg stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindísi Jane Jónsdóttir í baráttunni um boltann í leiknum í kvöld.
Sveindísi Jane Jónsdóttir í baráttunni um boltann í leiknum í kvöld. Getty/Simon Hofmann

Langt innkast Sveindísar Jane Jónsdóttur skilaði marki en kom ekki í veg fyrir mögulega dýrkeypt tap hjá hennar liði í kvöld.

Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar í Wolfsburg töpuðu nefnilega dýrmætum stigum í baráttunni við Bayern München um Þýskalandsmeistaratitilinn.

Wolfsburg tapaði 2-1 á útivelli á móti Hoffenheim en Hoffenheim liðið er í þriðja sæti deildarinnar.

Sveindís var í byrjunarliði Wolfsburg og lék allan leikinn. Hún féll niður á hnén í leikslok enda vonbrigðin mikil.

Sveindís reyndi fjögur skot og skapaði fjögur færi fyrir liðsfélaga sína en því miður fyrir hana og liðið hennar varð aðeins eitt þeirra að marki,

Fyrra mark Hoffenheim kom á 21. mínútu en það skoraði Paulina Krumbiegel. Seinna markið skoraði Michaela Specht úr vítaspyrnu á 70. mínútu.

Wolfsburg minnkaði muninn á 89. mínútu en markið skoraði Jule Brand með skalla eftir innkast frá Sveindísi.

Það vantaði ekki yfirburði Wolfsburg út á vellinum en þeim var fyrirmunað að skora. Skotin enduðu 34-8 fyrir Wolfsburg og þær voru 62 prósent með boltann.

Wolfsburg gat farið á toppinn með sigri en er nú einu stigi á eftir Glódísi Perlu Viggósdóttur og félögum í Bayern München sem eiga leik inni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×