Fótbolti

Ein sú besta í heimi segist vera sak­laus

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sam Kerr hefur lengi verið einn allra besti framherji kvennafótboltans.
Sam Kerr hefur lengi verið einn allra besti framherji kvennafótboltans. EPA-EFE/NEIL HALL

Ástralska knattspyrnukonan Sam Kerr lýsti sig saklausa af ákæru saksóknara um að hafa áreitt lögregluþjón í London á síðasta ári en hún kom fyrir dómara í London í gær. Réttarhald yfir henni fer ekki fram fyrr en á næsta ári.

Kerr, sem spilar fyrir Chelsea og ástralska landsliðið, lenti upp á kant við lögregluþjón í Twickenham í suðurhluta London þann 30. janúar á síðasta ári.

Samkvæmt fréttum á þeim tíma þá kom lögreglumaðurinn á svæðið vegna ósættis með leigubílagjald.

Mál Kerr var tekið fyrir í gær í Kingston upon Thames réttarsalnum. Kerr er ákærð fyrir að hafa meðal annars sýnt kynþáttafordóma gagnvart lögreglumanninum.

Kerr mætti ekki í dómsalinn en tók þátt í áheyrninni í gegnum fjarfundarbúnað.

„Ég skil sem svo að vörn hennar sé sú að hún hafi ekki ætlað sér að valda lögreglumanninum óþægindum, hegðun hennar sé ekki tilefni til ákæru og að ekki hafi verið um kynþáttafordóma að ræða,“ sagði Judith Elaine Coello dómari við lögfræðing Kerr í áheyrninni.

Knattspyrnusamband Ástralíu sagðist ekki hafa vitað af málinu og Chelsea hefur ekki gefið frá sér yfirlýsingu vegna þess.

Réttarhaldið mun ekki fara fram fyrr í febrúar á næsta ári. Tveir lögreglumenn munu þá gefa sinni vitnisburð á því sem gekk á þetta kvöld. Kerr mun þá vera farin að spila fótbolta á ný en hún er nú frá eftir að hafa slitið krossband í æfingarbúðum í Marokkó í janúar.

Kerr er ein þekktasta íþróttakona Ástrala og markahæsta landsliðskona Ástralíu með 69 mörk í 128 landsleikjum.

Hún hefur skorað 58 fyrir Chelsea síðan hún kom til félagsins árið 2020 og unnið marga titla með félaginu. Áður lék hún í Bandaríkjunum og í Ástralíu við góðan orðstír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×