Innlent

Forsetaframbjóðendur skjóta upp kollinum eins og gor­kúlur á haug

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Oliver Þórisson, Búi Baldvinsson og Húni Húnfjörð hafa allir stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð árið 2024. Hvort þeim er öllum alvara um framboð sitt er þó óvíst.
Oliver Þórisson, Búi Baldvinsson og Húni Húnfjörð hafa allir stofnað meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð árið 2024. Hvort þeim er öllum alvara um framboð sitt er þó óvíst.

Fjórir nýir frambjóðendur til embættis forseta Íslands hafa stofnað rafrænan meðmælalista fyrir framboð sitt. Frambjóðendur eru því orðnir tíu talsins og á þeim vafalaust eftir að fjölga.

Á Ísland.is má sjá alla frambjóðendur til forseta undir síðunni „Meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð 2024“. Þar fer fram rafræn meðmælasöfnun frambjóðenda og getur fólk skrifað rafrænt undir meðmæli.

Það sem vekur líka athygli er að það er einstaklega auðvelt að stofna til meðmælasöfnunar fyrir forsetaframboð svo lengi sem maður stenst aldurskröfur.

Í gær greindi Vísir frá því að Agnieszka Sokolowska, túlkur og verkefnastjóri af pólskum uppruna, hefði boðið sig fram. 

Síðan þá hefur heldur betur bæst í hópinn en þeir fjórir sem bættust við í dag eru: Oliver Þórisson, Ingvar Magnússon, Húni Húnfjörð og Búi Baldvinsson. 

Ekki hefur tekist að finna út úr því hvaða Ingvar Magnússon hefur boðið sig fram enda er nafnið býsna algengt. Nánar má lesa um hina þrjá frambjóðendurna hér fyrir neðan.

Fyrrverandi körfuboltamaður í hjálparstarfi í Kenýa

Húni Húnfjörð er fæddur árið 1977 og er menntaður viðskiptafræðingur með meistarapróf í alþjóðaviðskiptum. Hann lék körfubolta á yngri árum með Keflavík og ÍR, hefur kennt viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri og hefur undanfarin ár unnið við að byggja upp skóla fyrir munaðarlaus börn í Kenýa.

Húni skrifaði færslu um framboðið á Facebook-síðu sinni í morgun. Þar skrifaði hann „Forsetaframboð? Ég lofa að nota ne[i]tunarvaldið óspart. Forseta matarboðin verða flott og aldrei að vita nema þetta verði fyrsti forseti Íslands sem tengir við þig...þú sem ert að vakna.“

Húni Húnfjörð hefur starfað mikið í Kenýa undanfarin ár.

Búi á Bessastaði

Búi Baldvinsson er fæddur árið 1975 og starfar sem kvikmyndargerðarmaður. Hann er stofnandi og framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Hero Productions.

Hann hefur unnið að fjölda risastórra Hollywood-kvikmynda, þar á meðal Star Wars VII - The Force Awakens, The Secret Life of Walter Mitty, Noah og Stardust.

Búi greindi líka frá framboði sínu á Facebook í dag. Þar skrifaði hann „Búi á Bessastaði hljómar eithvað svo fallega.“

Vilius Petrikas og Búi Baldvinsson.Vísir/Hulda Margrét

Verslunarstjóri Subway í Reykjanesbæ

Minna er vitað um Oliver Þórisson en hann er fæddur árið 1973 og hefur áður starfað sem verslunarstjóri hjá Subway í Fitjum í Reykjanesbæ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×