Í tilkynningu segir að Helga sé stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands að mennt og hafi undanfarin áratug unnið við vef- og markaðsmál.
Helga starfaði sem verkefnastjóri vef- og markaðsmála hjá 1912 ehf. í sex ár og starfaði síðast á markaðsdeild Stöðvar 2. Hún hefur nú þegar hafið störf.
„Helsta hlutverk Helgu Eirar verður að leiða stafræna vegferð fyrirtækisins, þar á meðal vef Hagkaups sem hefur verið í miklum vexti undanfarin ár en framundan eru miklar breytingar og uppbygging til þess að Hagkaup geti veitt viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu.
Stafrænn leiðtogi mun taka þátt í því að móta skýra sýn í þessari vegferð Hagkaups og leiða starfsmenn og stjórnendur með í þetta spennandi verkefni.
Stafrænn leiðtogi heyrir undir markaðs- og upplifunarstjóra og er partur af markaðsteymi Hagkaups,“ segir í tilkynningunni.