Sport

Littler hættur að borða kebab á kvöldin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler ætlar að hætta að borða skyndibita seint á kvöldin.
Luke Littler ætlar að hætta að borða skyndibita seint á kvöldin.

Pílukastarinn Luke Littler ætlar að taka matarræðið hjá sér í gegn og er hættur að borða kebab á kvöldin.

Á HM um síðustu jól verðlaunaði Littler sig með því að fá sér kebab á kvöldin. Uppáhalds staðurinn hans, Hot Spot í Warrington, bauð honum meðal annars frítt að borða ævina á enda og bjó til sérstaktan Littler kebab.

En Littler, sem er nýorðinn sautján ára, ætlar nú að hugsa betur um sig og það þýðir að kebab á kvöldin heyrir sögunni til.

„Umboðsmaðurinn minn sagði að ég þegar ég klára klukkan ellefu eða tólf tekur skyndibitinn við. Ég verð því að hugsa vel um mig og borða áður en ég keppi. Þegar ég klára, jafnvel þótt það sé mjög seint, borða ég ekki. Það er nýi lífsstíllinn minn,“ sagði Littler.

Hann lenti í 2. sæti á HM og fékk í kjölfarið sæti í úrvalsdeildinni í pílukasti þar sem átta fremstu keppendur heims mætast í sautján keppnum á tæpum fjórum mánuðum.

Littler er í 2.-3. sæti úrvalsdeildarinnar með sjö stig, átta stigum á eftir forystusauðnum Michael van Gerwen. Næsta keppniskvöld er í Exeter á fimmtudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×