Dilyan Kolev vann karlaflokkinn eftir sigur í úrslitum gegn Matthíasi Friðrikssyni og Brynja Herborg hreppti hnossið í kvennaflokki eftir sigur í úrslitum gegn Ingibjörgu Magnúsdóttur. Þröstur Þór Sigurðsson tók Forsetabikarinn.
Mikil spenna ríkti fyrir mótinu sem mótshaldarar kölluðu Sjally Pally, tilvísun í vinsælasta pílumót heims, heimsmeistaramótið í Alexandria Palace í Bretlandi, sem gjarnan er kallað Ally Pally.
Keppt var um allt hús á fyrra keppniskvöldinu á föstudag en á laugardagskvöldi tóku 270 áhorfendur sér sæti við borð í aðalsalnum og fylgdust með útsláttarkeppninni sem fór fram á sviðinu.


Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs og Halldór Kristinn Harðarsson, eigandi Sjallans, greindu frá því að selst hafi upp á mótið á tæpum 40 mínútum. Þá sagði Davíð gífurlegan uppgang í pílunni á Íslandi, píluæðið sé í hámarki og þeir hafi gripið tækifærið til að gera eitthvað stórt.
Mikil ánægja var með mótið meðal allra sem að því komu, stefnt er að því að halda enn stærra og betra mót á næsta ári og Sjally Pally gæti vel fest sig í sessi sem árlegur íþróttaviðburður á Akureyri.
„Sami staður, stærra partý, fleiri ljós, fleiri myndavélar, fleiri og stærri skjáir, sami kynnir. Við ætlum að toppa #SJALLYPALLY24. Skráning hefst í janúar 2025 og mótið verður í febrúar 2025 setjið í calendar! Við erum bara rétt að byrja!“ skrifaði Píludeild Þórs á Facebook-síðu sinni.

Matthías Örn Friðriksson, einn fremsti pílukastari landsins, var meðal keppenda og komst alla leið í úrslit en tapaði þar fyrir Dilyan Kolev.
Matthías heldur einnig úti pílusíðunni Live Darts Iceland sem sýndi beint frá öllu kvöldinu á Sjallanum. Mikill metnaður var í útsendingunni en alls voru fjórar myndavélar nýttar í streymið og sýnt var frá öllum sjónarhornum.