Með tilliti til þess hversu stór partur af lífinu vinnan er hjá flestu fullorðnu fólki, er það hreinlega vondur staður að vera á að langa ekki í vinnuna.
En hvað er til ráða?
Jú, að líða svona er ekki eitthvað sem einskorðast bara við þína líðan. Margir hafa meira að segja upplifað þetta á einhverjum tímapunkti í lífinu.
Við skulum rýna í nokkrar algengar skýringar og góð ráð sem geta hjálpað.
Algengar skýringar
Það er í góðu lagi og alveg eðlilegt að langa ekki í vinnuna suma daga eða í nokkra daga í röð.
En þegar þessi líðan er orðin nokkuð viðvarandi og þú ert farin/n að finna fyrir því að svona líður þér einfaldlega alla daga, er vert að velta fyrir sér hvort eitthvað af eftirfarandi skýringum eigi við:
- Að þú sért komin í eða nálægt kulnun
- Önnur andleg vanlíðan, til dæmis þunglyndi eða kvíði
- Almenn óánægja með starfið sem þú ert í eða vinnustaðinn
- Sambandið þitt við vinnufélaga eða yfirmann er ekki gott og hefur truflandi áhrif á þig
- Að vera hrædd/ur um að standa þig ekki nógu vel í vinnunni.
Aðrar ástæður geta líka verið atriði eins og að þér finnist þú ekki metin/n af verðleikum eða að þú upplifir þig ekki sem hluta af hópnum.
Lykilatriðið er að átta okkur á því hver orsökin er og ákveða næstu skref í samræmi. Ef það að ræða við fagaðila, til dæmis lækni, á við, þá er um að gera að bóka tíma. Ef ekki, er ágætt að velta fyrir sér hvaða aðrar leiðir gætu verið góðar.
Nokkrar hugmyndir
Ef þú metur stöðuna þannig að það að skipta um vinnu sé ekki málið og að vanlíðanin stafi ekki af einhverju alvarlegu eins og andlegu ofbeldi eða einelti á vinnustað, er hægt að velta fyrir sér öðrum leiðum.
Því engum langar að líða svona alla daga.
Sem dæmi um hugmyndir má benda á:
Ef þú getur rætt málin við einhvern, góðan vin, maka eða samstarfsfélaga, þá getur það oft hjálpað.
Að rifja upp gömlu markmiðin þín er líka ágætis leið. Því oft missum við sjónar af því hver draumurinn okkar upphaflega var um starfsframa í lífinu. Hvað við ætluðum að verða þegar við yrðum stór? Stundum fáum við hugmyndir um ný tækifæri með því einu að rifja upp þessi gömlu markmið og tengjast þeim á ný.
Ef þér finnst vanlíðanin þín stafa af því hversu neikvætt andrúmsloft er á vinnustaðnum, spenna í loftinu eða mikið um baktal, er um að gera að finna leiðir til að fjarlægja þig sem mest frá því. Án undantekninga gerir það okkur gott að forðast neikvæðni og efla okkur frekar í jákvæðni. Leiðir til að gera þetta er til dæmis að taka aldrei undir baktal, vera jákvæð sjálf, brosa meira og svo framvegis.
Svefn skiptir líka miklu máli. Stundum er ónægur svefn skýringin á því að kvíði eykst og alls kyns önnur vanlíðan. Ert þú að sofa 7-9 klukkustundir á nóttu?
Allt sem þú telur efla sjálfið þitt er líka af hinu góða. Alltaf. Ef þú telur aðstæðurnar í vinnunni vera tímabundnar og að þetta sé ekki líðan sem eigi eftir að vera viðvarandi, getur samt verið gott að horfa á öll góð ráð sem þú telur geta nýst þér í að byggja sjálfan þig upp á meðan staðan er eins og hún er.