Í fyrradag voru kaup Ratcliffes á 27,7 prósent hluta í United staðfest. Félagið INEOS, sem er í eigu Ratcliffes, mun taka yfir allan fótboltatengdan rekstur United.
Ratcliffe barðist við Sjeik Jassim um kaup í United. Lengi vel leit út fyrir að Sjeikinn myndi kaupa öll hlutabréf United af Glazer-fjölskyldunni. Ratcliffe skaut á Sjeikinn í viðtali eftir að kaup hans á rúmlega fjórðungshluta í United voru staðfest.
„Enn hefur enginn séð hann. Glazerarnir hittu hann aldrei. Ég er ekki viss um að hann sé til,“ sagði Ratcliffe.
Sjeikinn dró sig út úr kapphlaupinu um kaup á United í október síðastliðinn. Talið er að tilboð hans hafi hljóðað upp á fimm og hálfan milljarð punda.
Í viðtalinu sagðist Ratcliffe vilja fella Manchester City og Liverpool af stalli sínum og koma United aftur í fremstu röð. Liðið hefur ekki orðið Englandsmeistari síðan Sir Alex Ferguson hætti þjálfun þess vorið 2013.
„Ég vil ekkert frekar en að henda þeim báðum af stallinum. Við erum þrjú félög í norðri sem erum mjög nálægt hvert öðru. Þau hafa verið á góðum stað í nokkurn tíma og við getum lært af þeim. Þeir eru með gott skipulag, gott fólk innan sinna raða og þar ríkir gott og kappsfullt andrúmsloft,“ sagði Ratcliffe um samkeppnina við City og Liverpool.
United hefur unnið fimm leiki í röð í öllum keppnum. Liðið er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 44 stig eftir 25 leiki.