Danska úrvalsdeildin í knattspyrnu fór af stað um helgina á nýjan leik eftir vetrarfrí. Íslendingaliðið Lyngby var í eldlínunni gegn Nordsjælland en þrír Íslendingar eru á mála hjá félaginu. Freyr Alexandersson yfirgaf félagið í janúar og tók þá við belgíska liðinu Kortrijk.
Andri Lucas Guðjohnsen og Kolbeinn Finnsson voru í byrjunarliði Lyngby í dag og það var einmitt Andri Lucas sem skoraði fyrra mark Lyngby í dag en hann kom liðinu í 1-0 á 44. mínútu leiksins.
Heimamenn í Nordsjælland náðu þó að jafna metin í uppbótartíma fyrri hálfleiks og skoruðu svo tvö mörk í síðari hálfleik og tryggðu sér sigur. Mark í uppbótartíma breyttu litlu fyrir Lyngby sem urðu að sætta sig við tap.
Lokatölur 3-2 fyrir Nordsjælland en Lyngby er í 8. sæti deildarinnar með 20 stig eftir átján spilaða leiki.