Fótbolti

Mafían á eftir ítölsku goð­sögninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gennaro Gattuso þurfti að hafa áhyggjur af fjölskyldu sinni heima á Ítalíu.
Gennaro Gattuso þurfti að hafa áhyggjur af fjölskyldu sinni heima á Ítalíu. Getty/Jonathan Moscrop

Ítalska knattspyrnugoðsögnin Gennaro Gattuso kom sér í vandræði hjá hópi sem enginn vill koma sér í vandræði hjá á Ítalíu.

Ítalski mafíuhópurinn Ndrangheta var á eftir Gattuso og beitti fjölskyldu hans fjárkúgun. Mafían hefur aðsetur á Kalabríu svæðinu á suður Ítalíu.

Blaðið Il Messaggero hefur heimildir fyrir því að mafían hafi þegar kveikt í bílum Gattuso-fjölskyldunnar og heimtað pening frá fjölskyldunni.

Ástæðan er sögð vera sú að Gattuso-fjölskyldan vildi fyrir nokkrum mánuðum setja upp sólarrafhlöður á lóð sinni. Mafían vildi fá greiðslu vegna málsins. Annars fengi fjölskyldufaðirinn ekki leyfi fyrir verkinu.

Til að hræða fjölskylduna til hlýðni er mafían sögð hafa kveikt tvisvar í bíl systur Gattuso. Fyrst í október og svo aftur í desember.

Lögreglan rannsakaði málið en komst seinna að því að Gattuso hafi gefist upp á þessu ástandi og ákveðið að borga mafíunni þrjú þúsund evrur. Það er sama og 446 þúsund í íslenskum krónum.

Lögreglan handtók engu að síður tvo aðila úr Ndrangheta-mafíunni og kærði þá fyrir fjárkúgun.

Gattuso er knattspyrnustjóri franska félagsins Olympique Marseille en hann er þekkastur fyrir fótboltaferil sinn sem leikmaður AC Milan og meðlimur heimsmeistaraliðs Ítala frá 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×