Fótbolti

Þjálfarinn talaði ekki við Albert í þrjá daga: „Nýju kaupin okkar“

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson á ferðinni í leik með Genoa í vetur.
Albert Guðmundsson á ferðinni í leik með Genoa í vetur. Getty/Francesco Pecoraro

Alberto Gilardino, þjálfari ítalska knattspyrnufélagsins Genoa, er hæstánægður með að fá áfram að þjálfa nafna sinn, Albert Guðmundsson, eftir óvissu síðustu sólarhringa.

Lengi virtist útlit fyrir að Albert yrði seldur til Fiorentina sem gerði nokkrar tilraunir til að ná samkomulagi við Genoa um kaupverð. Hæsta boðið í gær var upp á 22 milljónir evra, auk 3 milljóna evra í bónusgreiðslur, eða samtals jafnvirði 3,7 milljarða króna. Því hafnaði Genoa og mun hafa viljað 30 milljónir evra.

Gilardino var spurður að því í dag hvort að hann hefði óttast að missa Albert, sem skorað hefur níu mörk í ítölsku A-deildinni í vetur:

„Ég hef ekki sagt orð við hann síðustu þrjá daga. Ég skildi við hann mjög rólegan og í dag mun ég faðma hann. Hann er nýju kaupin okkar fyrir seinni hluta leiktíðarinnar. Hann hefur ekki látið tal síðustu vikna trufla sig neitt og það sýnir að hann er toppleikmaður, einnig hvað hugarfarið snertir,“ sagði Gilardino.

„Það er heppilegt fyrir hann að hann verði áfram í Genoa því hér er hann dáður og vel liðinn af liðsfélögunum. Núna þarf hann að draga liðið áfram því hæfileikarnir til þess búa í honum. Við erum ánægðir með að hann skyldi halda kyrru fyrir og það sýnir sig í því að félagið gaf ekki þumlung eftir,“ bætti þessi fyrrverandi landsliðsframherji Ítalíu við.

Næsti leikur Genoa er á útivelli gegn Empoli klukkan 14 á morgun. Þess má geta að leikurinn er sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×