Sport

Anton Sveinn vann sér inn þúsund evrur á Reykjavíkurleikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anton Sveinn McKee og Snorri Dagur Einarsson náðu báðir lágmörum á Evrópumeistaramótið í 50 metra laug.
Anton Sveinn McKee og Snorri Dagur Einarsson náðu báðir lágmörum á Evrópumeistaramótið í 50 metra laug. SSÍ

Anton Sveinn McKee náði besta afrekinu á Reykjavíkurleikunum í sundi en mótið fór fram um helgina og tókst framkvæmdin vel.

Þrjú mótsmet voru sett í ár en þau slógu þau Snæfríður Sól Jórunnardóttir Álaborg í 200 metra skriðsundi, Birnir Freyr Hálfdánarson, SH í 200 metra fjórsundi og Guðmundur Leo Rafnsson,ÍRB í 200 metra baksundi.

Það voru veitt peningaverðlaun fyrir fimm bestu afrek mótsins.

Þessi áttu fimm bestu afrek mótsins eða þau Anton Sveinn McKee , Snæfríður Sól Jórunnardóttir, Einar Margeir Ágústsson, Snorri Dagur Einarsson og Vala Dís Cicero.SSÍ

Anton Sveinn McKee fékk þúsund evrur fyrir 200 metra bringusund, Snæfríður Sól Jórunnardóttir fékk sjö hundruð evrur fyrir 200 metra skriðsund, Einar Margeir Ágústsson fékk fjögur hundruð evrur fyrir 50 metra bringusund, Snorri Dagur Einarsson fékk tvö hundruð evrur fyrir 100 metra bringusund og Vala Dís Cicero fékk hundrað evrur fyrir 200 metra skriðsund.

Þúsund evrur eru 149 þúsund krónur og sjö hundruð evrur eru rúmar 104 þúsund krónur.

Góður árangur náðist í mörgum greinum og margir syntu það vel að þau tryggðu sér lágmörk á alþjóðleg sundmót sumarsins.

Fjögur tryggðu sig inn á Evrópumeistaramótið í 50 metra laug en það voru þau Einar Margeir Ágústsson (50 metra bringusund), Snorri Dagur Einarsson (50 metra og 100 metra bringusund), Anton Sveinn McKee (100 metra og 200 metra bringusund) og Snæfríður Sól Jórunnardóttir (200 metra skriðsund).

Birnir Freyr Hálfdánarson og Vala Dís Cicero úr SH náðu lágmörkum á Evrópumeistaramót unglinga.

Hólmar Grétarsson úr SH, Magnús Víðir Jónsson úr SH, Denas Kazulis úr ÍRB og Vala Dís Cicero úr SH náðu öll lágmörkum á Norðurlandameistaramót Æskunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×