Joelinton gekkst undir aðgerð á læri á dögunum og verður frá keppni fram í maí.
Þessi 27 ára gamli Brassi er samningsbundinn Newcastle til ársins 2025, en Newcastle er undir pressu að fylgja fjárhagsreglum ensku úrvalsdeildarinnar um sjálfbærni í rekstri.
„Hann á 18 mánuði eftir af samningi sínum þannig að það er möguleiki á því að hann verði seldur í sumar,“ sagði Howe er hann var spurður út í mál Joelinton á blaðamannafundi í dag.
„Ég get ekki spáð í framtíðina, en það er mögulegt. Ég vona að það verði ekki raunin því ég vil halda honum hérna. Ég elska hann sem persónu og sem leikmann.“
„En áður en leikmaður skrifar undir samning þarf hann að vera ánægður með allt og við erum ekki komin þangað ennþá,“ bætti þjálfarinn við.
Joelinton gekk í raðir Newcastle árið 2019 fyrir 40 milljónir punda frá Hoffenheim. Hann hefur komið við sögu í 20 leikjum í öllum keppnum á tímabilinu þar sem hann hefur skorað þrjú mörk.