Ríkisstjórnin kynnti í gær milljarða pakka til að bregðast við aðstæðum í Grindavík. Forsætisráðherra sagði í gær endanlega línu liggja fyrir í febrúar. Þetta sagði Bjarni í Silfrinu í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi.
Hann sagði það áhyggjuefni ef við værum stödd í hrinu jarðhræringa sem geti haft aðrar og alvarlegar afleiðingar á hitaveitu og rafmagn. Það séu mikilvægir innviðir í húfi.
Hann ræddi einnig kjaraviðræður þar og ákall um að yfirvöld kæmu inn í þjóðarsátt sem unnið er að með því að styrkja tilfærslukerfið. Hann sagði að verkalýðsfélögin hefði jafnvel sagt að ef ríkið kæmi ekki inn með þeim hætti yrðu engir kjarasamningar. Vandamálið væri þó að þegar ríkið, sem hann sagði okkur öll, þyrfti að stíga inn í verkefni eins og Grindavík væri svigrúmið minna.
„Það auðvitað hefur áhrif á getu okkar til að teygja okkur í átt að kröfum annarra sem á sama tíma eru að biðja okkur að leggja eitthvað af mörkum.“
Spurður hvort að aðstæður í Grindavík myndu hafa þá bein áhrif á kjaraviðræður sagði Bjarni nauðsynlegt fyrir alla að líta á heildarmyndina og það væri óskynsamlegt „af öllum aðilum að ætlast til þess að þeir séu teknir út úr því stóra samhengi sem við öll erum í.“
Bjarni ræddi einnig færslur sínar á Facebook-um tjaldbúðir flóttamanna og það hvort að hann hefði verið að slá nýjan tón í umræðum um útlendingamál. Hægt er að horfa á viðtalið hér á vef RÚV.