Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Eldfjalla-og náttúruváhóp Suðurlands. Þar segir að ólíkt fyrri atburðum, hafi ekkert sig mælst í Svartsengi þegar kvikuinnskotið myndaðist sunnudaginn 14. janúar, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.


„Þetta frávik (þ.e.a.s. skortur á sigi) í Svartsengi hefur verið skýrt sem svo að landris af völdum innskotsins sem fór undir Grindavík hafi vegið upp á móti því sigi sem hefði annars orðið í Svartsengi,“ segir í færslunni.
Þá sýna líkön að upptakasvæði innskotsins hafi verið nokkuð vestar en þeirra tveggja sem urðu í desember og nóvember. Því komi ekkert sig fram á GPS mælinum í Svartsengi.
Búast við að dragi til tíðinda eftir nokkrar vikur
Kvikusöfnun heldur því áfram með svipuðum hætti og áður og má búast við að til tíðinda dragi á ný eftir nokkrar vikur. Fram hefur komið að nýr sigdalur hafi myndast innanbæjar í Grindavík. Nú fyrir helgi hafði sig innan dalsins mælst alls 1,3 m frá síðustu helgi.