Stuðningsmenn beggja liða köstuðu súkkulaðipeningum inn á völlinn í mótmælaskyni gegn fjárfestingatillögu þýska knattspyrnusambandsins. Fjárfestingatillagan felur í sér að selja hluta af sjónvarpsrétti þýsku deildarinnar til að sækja aukið fjármagn.
Súkkulaðiregnið átti sér stað á tólftu mínútu leiksins sem átti að tákna það að stuðningsmenn þýsku liðanna líta á sig sem tólfta mann liðsins.
🍫💰
— Mirror Football (@MirrorFootball) January 20, 2024
Borussia Dortmund's clash with Koln has been halted after fans pelted the pitch with chocolate coins https://t.co/C2GfsJkWX7 pic.twitter.com/78T6AIElfF
Gjörningurinn varð til þess að gera þurfti átta mínútna hlé á leiknum á meðan leikmenn beggja liða aðstoðuðu vallarstarfsfólk við að fjarlægja súkkulaðipeningana.
Leikurinn hélt þó áfram að lokum og gestirnir frá Dortmund unnu öruggan 4-0 sigur. Donyell Malen skoraði tvö mörk fyrir gestina og þeir Niclas Füllkrug og Youssoufa Moukoko bættu sínu markinu hvor við.
Þetta er hins vegar ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn sjá til þess að gera þurfi hlé á leikjum vegna mótmæla þeirra gegn fjárfestingartillögunni. Tennisboltaregn í leik Bochum og Union Berlin í síðasta mánuði hafði sömu áhrif, sem og almenn mótmæli í viðureign Heidenheim og Wolfsburg í gær.