Á geldingar- og ófrjósemisaðgerðadögunum verður boðið upp á 30 prósent afslátt af aðgerðargjöldum. Miðvikudagur verður helgaður fressum en verðið á geldinu er um 12.000 krónur með afslættinum.

Á fimmtudeginum er komið að læðunum að leggjast undir hnífinn en verð á ófrjósemisaðgerð er í kringum 21.500 krónur. Örlítill breytileiki getur verið á verðinu þar sem lyf eru gefin eftir þyngd dýranna. Þetta kemur fram á Facebook síðu Dýraspítalans í Víðidal.
Fjöldinn allur af kattaauglýsingum
Fjöldi kattaeigenda leita nú að nýju heimili fyrir kettina sína. Á heimasíðu Dýrahjálpar eru tólf kettir skráðir í heimilisleit og á samfélagsmiðlum eru kettlingar sem og fullorðnir kettir reglulega auglýstir til sölu eða gefins. Á heimasíðu Villikatta má einnig finna ferfætlinga í heimilisleit víða um land.
Þegar Covid-19 faraldurinn stóð sem hæst var staðan önnur, en þá var nánast slegist um ketti í Kattholti.
Tveimur árum síðar var farið að bera á því að fólk væri að losa sig við dýrin sem það hafði fengið sér í faraldrinum.