Fótbolti

Lýsa upp völlinn og birta skila­boð til heiðurs Beckenbauer

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sjá má skilaboðin „Danke Franz“ utan á Allianz Arena.
Sjá má skilaboðin „Danke Franz“ utan á Allianz Arena. Vísir/Getty

Þýska stórveldið Bayern München mun lýsa upp heimavöll sinn, Allianz Arena, næstu daga og senda skilaboð til heiðurs Franz Beckenbauer, sem lést síðastliðinn sunnudag.

Keisarinn, eins og Beckenbauer var oft kallaður, lék lengst af ferilsins með Bayern München. Hann varð fjórum sinnum þýskur meistari og fjórum sinnum bikarmeistari með liðinu, vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð (1974-76) og Evrópukeppni bikarhafa einu sinni. Hann lést síðastliðinn sunnudag eftir að hafa glímt við veikindi í nokkurn tíma, 78 ára að aldri.

Bayern München mun því senda sinni gömlu hetju skilaboð næstu daga þar sem honum er þakkað fyrir allt sem hann gerði fyrir félagið. Bayern sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kemur fram að á Allianz Arena megi sjá sérstök skilaboð næstu daga, Keisaranum til heiðurs.

„Takk fyrir allt, Franz Beckenbauer,“ segir í tilkynningu Bayern.

„Til að minnast „Keisarans“ munum við lýsa upp Allianz Arena með orðunum „Takk Franz“ á milli 16:30 og 22:00 næstu daga.“

„Til að loka þessu verður hægt að sjá skilaboðin milli 16:30 og 00:30 á föstudaginn, á meðan FC Bayern spilar heimaleik sinn gegn TSG 1899 Hoffenheim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×