Fótbolti

Sancho gæti snúið aftur til Dortmund

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jadon Sancho gæti snúið aftur til Dortmund á láni.
Jadon Sancho gæti snúið aftur til Dortmund á láni. Vísir/Getty

Jadon Sancho, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, geti snúið aftur til Borussia Dortmund á láni áður en félagsskiptaglugginn lokar í lok janúar.

Sancho, sem lék með Dortmund frá 2017-2021, gekk í raðir Manchester United sumarið 2021. Hann hefur leikið 58 deildarleiki fyrir félagið, en Englendingurinn hefur verið úti í kuldanum stærstan hluta yfirstandandi tímabils.

Leikmaðurinn lenti í útistöðum við þjálfara liðsins, Erik ten Hag, þar sem Sancho sagðist hafa verið gerður að blóraböggli eftir að hollenski þjálfarinn sagði að Sancho hafi ekki verið í leikmannahópi Manchester United vegna frammistöðu hans á æfingum.

Sancho hefur svo neitað að biðjast afsökunar á ummælum sínum og hefur, frá því að þau féllu í september á síðasta ári, ekki fengið að æfa eða spila með aðalliði félagsins.

Nú berast fréttir af því að Sancho gæti snúið aftur til Dormund nú þegar félagsskiptaglugginn er opinn. Talið er að Dortmund sé tilbúið að bjóða Sancho lánssamning og félagið bindur vonir við að næla í vængmanninn út yfirstandandi tímabil í það minnsta.

Sancho, sem var keyptur frá Dortmund á 73 milljónir punda, gæti því snúið aftur til félagsins þar sem hann sprakk fyrst út. Þó er talið að Manchester United muni þurfa að greiða stóran hluta af launum leikmannsins ef af lánssamningnum á að verða, sökum þess hversu mikið laun hans hækkuðu eftir að hann færði sig frá Dortmund til Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×