Á vef Veðurstofunnar segir að lægðin beini flákum af úrkomu yfir landið og verði því víða rigning eða slydda með köflum, en lítil úrkoma mun ná yfir á Norðurland.
Gera má ráð fyrir að hiti verði á bilinu núll til fimm stig.
„Á morgun fjarlægist lægðin og gliðnar á milli þrýstilína. Þá er spáð austan 3-10 m/s. Bjartviðri nokkuð víða, en búast má við dálitlum éljum á austanverðu landinu. Það frystir inn til landsins, en allvíða frostlaust við strendur.
Að lokum má geta þess að spár gera ráð fyrir að svipað og aðgerðalítið veður haldist áfram til fimmtudags,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Austan og norðaustan 3-8 m/s, en 8-13 með suðausturströndinni. Dálitlir skúrir eða él á austanverðu landinu, annnars víða bjartviðri. Hiti kringum frostmark.
Á fimmtudag: Norðaustan 5-10. Skýjað með köflum og þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi, en svolítil él austantil landinu. Frost 0 til 8 stig.
Á föstudag: Suðlæg átt með slyddu eða snjókomu og hita kringum frostmark, en þurrt veður austanlands með frosti að 7 stigum.
Á laugardag: Suðlæg eða breytileg átt og víða þurrt og bjart veður. Frost 0 til 10 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.
Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir sunnanátt. Skýjað með köflum og þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi, hiti 0 til 5 stig. Léttskýjað norðan- og austanlands og frost 1 til 7 stig.