Hinn 64 ára Ancelotti hafði verið orðaður við brasilíska landsliðið en nú er ljóst að hann verður áfram hjá Real Madrid.
Ancelotti tók í annað sinn við Real Madrid 2021. Undir hans stjórn vann liðið spænsku úrvalsdeildina, Meistaradeild Evrópu og heimsmeistaramót félagsliða 2022 og spænsku bikarkeppnina 2023.
Ancelotti stýrði Real Madrid áður á árunum 2013-15. Þá varð liðið Evrópumeistari og bikarmeistari.
Auk Real Madrid hefur Ancelotti stýrt Reggiana, Parma, Juventus, AC Milan og Napoli á Ítalíu, Chelsea og Everton á Englandi, Paris Saint-Germain í Frakklandi og Bayern München í Þýskalandi.
Real Madrid er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar ásamt spútnikliði Girona. Næsti leikur strákanna hans Ancelottis er gegn Mallorca á miðvikudaginn.