Lloris missti sætið sitt í byrjunarliði Spurs undir lok síðasta tímabils og hefur ekkert spilað með liðinu í vetur.
Frakkinn kom til Spurs frá Lyon 2012 og hefur leikið 447 leiki fyrir félagið. Hann var gerður að fyrirliða Tottenham 2015 en Son Heung-min tók við þeirri stöðu í haust.
Samningur Lloris við Spurs rennur út í sumar. Hann gæti samt yfirgefið félagið áður og á núna í viðræðum við LAFC sem komst í úrslit um bandaríska meistaratitilinn fyrr í þessum mánuði.
Hinn 37 ára Lloris varð heimsmeistari með franska landsliðinu 2018. Hann er leikjahæstur í sögu þess með 145 leiki.