Þetta segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Snjóflóð féll í Strengsgili ofan Siglufjarðar í nótt og rann meðfram leiðigarðinum Stóra-Bola og yfir veg. Þá féllu tvö snjóflóð yfir Siglufjarðarveg. Nokkrir bílar festust Fljótamegin við Strákagöng og nutu aðstoðar björgunarsveita sem komu farþegum aftur til byggða.
„Talsvert hefur snjóað og skafið á Tröllaskaga í nótt, sérstaklega á utanverðum og vestanverðum skaganum. Áfram er spáð talsverðri snjókomu í dag, aðfangadag, og jóladag.
Ástæða er til þess fyrir ferðafólk og vegfarendur að fara með gát þar sem snjóflóð geta fallið,“ segir í lok tilkynningar.
Allir helstu vegir á Vestfjörðum eru sömuleiðis lokaðir en tvö snjóflóð féllu yfir Eyrarhlíð á Ísafirði.
„Af öryggisástæðum var veginum um Eyrarhlíðina lokað. Verið er að meta stöðuna m.t.t. hvort og hvenær er óhætt að opna veginn um Eyrarhlíðina. Það verður tilkynnt af hálfu Vegagerðarinnar og lögreglunnar,“ segir lögreglan á Vestfjörðum í tilkynningu.