Auk hans slepptu yfirvöld í Caracas úr haldi tíu öðrum Bandaríkjamönnum en nokkrir þeirra voru fangelsaðir í undarlegri valdaránstilraun.
Feiti Leonard heitir í raun Leonard Francis og er frá Malasíu. Hann flúði frá Bandaríkjunum í fyrra, nokkrum vikum áður en hann átti að mæta í dómsuppkvaðningu fyrir aðild hans að áðurnefndu spillingarmáli.

Washington Post hefur eftir lögmanni hans að Francis hafi verið sendur til Bandaríkjanna án nokkurs fyrirvara og gegn stjórnarskrá Venesúela. Lögmaðurinn fékk ekki að vita af flutningunum og lýsir þeim sem gölnum.
Francis lýsti á sínum tíma yfir sekt sinni og viðurkenndi að hafa mútað yfirmönnum í sjóher Bandaríkjanna með peningum, lúxusvörum, vindlum frá Kúbu og vændiskonum í skiptum fyrir upplýsingar sem hann notaði til að svíkja fé úr sjóhernum.
Málið vakti gífurlega athygli á sínum tíma og afhjúpaði mikla spillingu innan sjöunda flota sjóhers Bandaríkjanna, sem er með höfuðstöðvar í Japan.
Hann flúði Bandaríkin skömmu fyrir dómsuppkvaðningu í september í fyrra, með því að skera af sér staðsetningatæki, húkka far að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó og fljúga þaðan til Kúbu.
Sjá einnig: „Feiti Leonard“ slapp úr stofufangelsi
Yfirvöld á Kúbu meinuðu honum um dvalarleyfi og þaðan fór hann til Venesúela, þar sem hann sótti um hæli í rússneska sendiráðinu í Caracas. Meðan verið var að vinna úr umsókn hans, var hann handtekinn á grunni handtökuskipunar frá Interpol.
Talið er að hann hafi eingöngu verið handtekinn svo Maduro gæti notað hann í viðræðum við ríkisstjórn Bandaríkjanna um frelsun Saab.
Handtekinn við millilendingu
Saab er náinn bandamaður Maduro sem sat í gæsluvarðhaldi í Miami vegna ákæra um peningaþvætti og fjársvik. Hann er grunaður um að hafa þvættað gífurlegt magn peninga fyrir Maduro í gegnum árin. Hann var handtekinn á Grænhöfðaeyjum í fyrra þar sem flugvél hans var millilent á leið til Írans.
Viðræður milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Venesúela hafa farið fram undanfarnar vikur en Bandaríkin felldu úr gildi hluta viðskiptaþvingana gegn Venesúela í skiptum fyrir það að Maduro haldi frjálsar og sanngjarnar forsetakosningar á næsta ári, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Eitt af skilyrðum fyrir niðurfellingu viðskiptaþvingana var að Maduro sneri við banni sínu við því að María Corina Machado, einn helsti pólitíski andstæðingur Maduro, gæti boðið sig fram til forseta. Maduro hafði frest til 30. nóvember en hefur ekki enn fellt bannið úr gildi.
Þegar Saab sneri aftur til Venesúela í gærkvöldi lýsti Maduro því sem miklum sigri fyrir hönd sannleikans og sakaði Bandaríkjamenn um pyntingar og ógnanir gegn Saab, sem Maduro sagði að hefði verið handtekinn með ólöglegum hætti.
Þá beindi Maduro orðum sínum að Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, og sagði Venesúela yrði engin nýlenda.
Fyrrverandi hermönnum sleppt úr haldi
Af hinum tíu Bandaríkjamönnum sem frelsaðir voru segja embættismenn í Washington DC að margir þeirra hafi verið ranglega fangelsaðir í Venesúela. Í raun teknir í gíslingu svo yfirvöld þar hafi getað kúgað Bandaríkin.
Meðal þeirra eru þó einnig, samkvæmt Wall Street Journal, þeir Luke Denman og Airan Berry, fyrrverandi bandarískir hermenn, sem tóku árið 2020 þátt í undarlegri og misheppnaðri tilraun til að velta Maduro úr sessi. Þeir höfðu báðir verið dæmdir í tuttugu ára fangelsi í Venesúela.
Þá störfuðu þeir hjá öryggisfyrirtækinu Silvercorp USA en valdaránstilraunin átti að hafa verið gerð með aðkomu pólitískra andstæðinga Maduro.
Pólitískir andstæðingar Biden í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt samkomulagið harðlega. Repúblikanar hafa meðal annars sakað Biden um að hafa valdið því að stjórnendur einræðisríkja muni leggja meira á sig við að handtaka Bandaríkjamenn í framtíðinni.
Biden hefur gert sambærileg fangaskipti við yfirvöld í Íran og í Rússlandi á undanförnum árum.
Aðilar innan stjórnarandstöðu Venesúela segja Maduro hafa hlaupið hringi kringum ráðamenn í Bandaríkjunum.