Sport

Heims­meistarinn þurfti að hafa fyrir hlutunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Michael Smith er kominn í 32-manna úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti.
Michael Smith er kominn í 32-manna úrslit heimsmeistaramótsins í pílukasti. Luke Walker/Getty Images

Michael Smith, ríkjandi heimsmeistari í pílukasti, varð í kvöld dyrsti keppandinn til að tryggja sér sæti í 32-manna úrslitum heimsmeistaramótsins í pílukasti sem hófst í kvöld.

Smith, eða Bully Boy, þurfti þó að hafa fyrir hlutunum gegn hinum hollenska Kevin Doets, sem hafði unnið sér inn keppnisrétt gegn Smith með sigri gegn Stowe Buntz frá Bandaríkjunum í fyrsta leik kvöldsins, 3-0.

Bully Boy vann fyrsta settið gegn Doets 3-1 áður en sá hollenski vann næstu tvö sett, 3-2 og 3-2. Doets var því allt í einu orðinn aðeins einu setti frá því að slá heimsmeistarann úr leik strax á fyrsta degi og heimsmeistarinn sjálfur með bakið upp við vegg.

Bully Boy sýndi þó úr hverju hann er gerður á lokasprettinum og vann seinustu tvö sett kvöldsins, bæði 3-1, og tryggði sér um leið sæti í 32-manna úrslitum. Kevin Doets er hins vegar úr leik.

Fyrr í kvöld tryggðu þeir Cameron Menzies og Simon Whitlock, ásamt Kevin Doets, sér sæti í 64-manna úrslitum. Menzies vann öruggan 3-0 sigur gegn Rusty-Jake Rodriguez áður en Whitlock lagði Paolo Nebrida 3-2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×