Spilamennska Manchester United á tímabilinu hefur ekki heillað stuðningsmenn liðsins og liðið situr nú í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 27 stig eftir 16 leiki, tíu stigum á eftir toppliði Liverpool.
Liðið mætir einmitt Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun, en Manchester United kemur inn í leikinn með tvo tapleiki í röð á bakinu. United mátti þola 3-0 tap á heimavelli gegn Bournemouth í síðasta deildarleik áður en liðið tapaði 1-0 gegn Bayern München í Meistaradeildinni í miðri viku og féll þar með alfarið úr leik í Evrópukeppnum.
Þá hefur síðasta viðureign Manchester Unted og Liverpool nokkuð verið rifjuð í aðdraganda leiks morgundagsins þar sem Rauði herinn frá Liverpool vann ótrúlegan 7-0 sigur.
Ten Hag segist þó finna fyrir stuðningi innan félagsins.
„Ég finn fyrir stuðningi og það rímar við það sem mér er sagt. Það er allt í góðu. Ég er bara að einbeita mér að vegferðinni, ég er að einbeita mér að því að gera liðið og einstaklingana betri,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í gær.
„Það er það sem ég hef áhyggjur af og er að einbeita mér að. Ég get ekki farið að gleyma mér í tali um hvort ég sé að missa vinnuna. Það hjálpar mér ekki neitt.“
„Við erum óstöðugir og ég þarf að einbeita mér að því að smíða lið sem getur haldið hæsta gæðaflokki lengur.“