Fram kemur í tilkynningu frá Bláa lóninu að lokun lónsins hafi verið framlengd til klukkan 7 morguninn 7. desember, sem er á fimmtudag í næstu viku. Staðan verði endurmetin þá.
„Töluvert hefur verið um eldsumbrot á Reykjanesi síðustu tvö ár. Viðbragðsaðilar, yfirvöld og bæjarfélög eru vel undirbúin fyrir slíka atburði og vinna í skipulegu samstarfi og samráði við fremstu sérfræðinga landsins á þessu sviði,“ segir í tilkynningunni.
Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir 10. nóvember síðastliðnn og Grindavíkurbær rýmdur vegna jarðhræringanna. 22. nóvember var svo fært niður af neyðarstigi á hættustig, sem tryggt hefur íbúum í Grindavík rýmri heimildir til að heimsækja bæinn.