Stórforeldri og aðkynhneigð eru nýyrði sem kynnt voru í gær á Degi íslenskrar tungu. Þá var einnig kynnt til leiks skammstöfunin ks. sem er skammstöfun á kynsegin, eins og kvk. og kk.
Nýyrðin og skammstöfunin eru nýyrði sem eru afurð Hýryrða, nýyrðasamkeppni samtakanna ´78.
Stórforeldri er kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldris. Það sem flestir þekkja sem ömmu eða afa. Aðkynhneigð er svo þýðing á orðinu allosexual. Allosexual er fólk sem finnur fyrir kynferðislegri hrifningu á öðru fólki. Kynhneigð þeirra getur verið hver sem er.
Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að keppnin hafi nú verið haldin í þriðja sinn. Markmiðið með henni er að gefa almenningi kost á að taka þátt í að stækka og efla íslenskan orðaforða um hinsegin tilveru.
„Hinsegin barátta og umræða um hinsegin málefni, til dæmis kynjaðan veruleika, hefur þróast sérlega hratt á síðustu áratugum og Hýryrðum er meðal annars ætlað að tryggja að íslensk tunga haldi í við þá þróun. Það er mikilvægt fyrir hinsegin fólk og sjálfsákvörðunarrétt þess að geta talað um tilfinningar sínar, sjálfsmynd og samfélagsformgerðir á íslensku og það er enn fremur forsenda fyrir því að samfélagið sé í stakk búið að ræða málin,“ segir í tilkynningunni.
Góð þátttaka í ár
Þar kemur einnig fram að keppnin hafi hafist 19. apríl þar sem kallað var eftir tillögum að orðum sem vantaði í tungumálið. Eftir það var svo auglýst eftir kynhlutlausu orði yfir foreldri foreldris, kynhlutlausri skammstöfun hliðstæðri kvk. og kk., kynhlutlausu ábendingarfornafni og íslenskum þýðingum á annars vegar enska orðinu allosexual og hins vegar orðunum femme og masc.
Alls sendu um 300 manns inn tillögu að einu eða fleiri orðum áður en frestur rann út 15. september.
Önnur orð sem hafa verið valin í samkeppninni fyrri ár eru kvár, stálp, mágkvár, svilkvár og eikynhneigð. Í fyrra voru í keppninni valin hýr tákn í táknmál.
Nánar er fjallað um niðurstöður keppninnar hér á vef samtakanna.