Greint er frá málinu á vef Ísafjarðarbæjar en þar kemur fram að á fundi menningarmálanefndar hafi verið tekin ákvörðun um útnefningu bæjarlistamanns 2023. Skömmu áður en útnefning átti að fara fram með viðhöfn á Veturnóttum í lok október hafi listamaðurinn afþakkað útnefninguna. Tónlistarmaðurinn Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, er sá sem átti að taka við verðlaununum.
„Það var ég sem afþakkaði“
Mugison greinir sjálfur frá málinu á Facebook-síðu sinni. „Það var ég sem afþakkaði - ég var beðinn um að koma í lok mánaðarins til að taka á móti heiðrinum og þar sem ég er að spila á 18 tónleikum næstu fjórar vikur - úti um allt land þá vildi ég ekki vera með vesen og „heimta“ að þau færðu dagsetninguna sem þau eru vön að afhenda þetta á,“ útskýrir Mugison sem bætir við að honum þyki mjög vænt um útnefninguna. „Stuðkveðjur vestur,“ segir hann jafnframt.Menningarmálanefnd tók þá ákvörðun í kjölfar þess að Mugison afþakkaði verðlaunin að ekkert yrði af útnefningu í ár. Þess í stað yrðu áætlaðir fjármunir vegna verðlaunafjár bæjarlistamanns 2023, að upphæð tvö hundruð þúsund krónum, frekar nýttir til frekari jólaskreytinga í sveitarfélaginu.