Liverpool laut í lægra haldi fyrir Toulouse, 3-2, á útivelli í E-riðli Evrópudeildarinnar í gær. Með sigri hefði Rauði herinn tryggt sér sæti í útsláttarkeppninni.
Eftir leikinn var blaðamannafundur Liverpool haldinn í einhvers konar tjaldi. Þar heyrðist vel í stuðningsmönnum Toulouse sem fögnuðu sigrinum á hæsta styrk svo það heyrðist varla í Klopp sem var hinn pirraðasti.
„Hverjum datt í hug að halda blaðamannafund hér? Það er mjög áhugaverð spurning. Vá,“ sagði Þjóðverjinn sem horfði í kringum sig í smá stund áður en hann svaraði næstu spurningu.
"Who had the idea to do the press conference here?"
— Sky Sports News (@SkySportsNews) November 9, 2023
Jurgen Klopp was left furious after his post-match press conference was interrupted by Toulouse's celebrations pic.twitter.com/YGMOf5gzso
Liverpool lenti tvisvar tveimur mörkum undir í leiknum í Toulouse í gær. En Diogo Jota kveikti vonarneista hjá gestunum þegar hann minnkaði muninn á 89. mínútu. Þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Jarell Quansah þriðja mark Liverpool en það var dæmt af vegna hendi á Alexis Mac Allister.
Liverpool er enn á toppi E-riðils með níu stig en Toulouse er í 2. sætinu með sjö stig.
Næsti leikur Liverpool, og sá síðasti fyrir landsleikjahlé, er gegn Brentford í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.