Fyrst fór rafmagnið af á Egilstöðum í gærkvöldi en í nótt varð síðan mun umfangsmeira rafmagnsleysi þegar stór hluti Austurlands sló út. Steinunn Þorsteinsdóttir er upplýsingafulltrúi Landsnets.
„Það var rafmagnslaust á öllu Austurlandi og það var rafmagnslaust í hátt í tvo tíma og ástæðan fyrir því var að við vorum með tvær línur úti, Fljótsdalslínu 2 sem laskaðist mjög mikið í þessari ísingu og svo Teigarhornslínu 1 þannig að við vorum með tvær aðallínurnar á Austurlandi bilaðar og það er ástæðan fyrir því að það varð svona víðtækt rafmagnsleysi.“

Ráðist var í bráðabirgðaviðgerðir í gærkvöldi og fram eftir nóttu. Fljótsdalslína 2 er enn löskuð og þarfnast viðgerðar.
„Rafmagn var alls staðar komið á undir morgun en eftir stendur að við erum með bilaðar línur sem við þurfum að fara í viðgerðir á í dag og við erum nú þegar byrjuð á viðgerð á Teigarhornslínu 1 en staðan á Austurlandi er mjög viðkvæm eins og stendur og það gætu orðið rafmagnstruflanir í dag á meðan á viðgerðum stendur.“
Steinunn bendir á að í ljósi þess að skemmdir eru enn á línunum gætu rafmagnstruflanir orðið. Því sé rétt að fylgjast vel með þróun mála á heimasíðu Landsnets þar sem upplýsingar verða birtar um leið og rafmagnstruflana gætir.