Í fréttatilkynningu þess efnis segir að prestar Ástjarnarkirkju séra Arnór Bjarki Blomsterberg og séra Bolli Pétur Bollason muni haf umsjá með stundinni. Samverustundin verði vettvangur fyrir samfélagið til að votta virðingu sína, sýna samstöðu, og stuðning.
Greint var frá því í morgun að átta ára drengur hafi látist í umferðarslysi á Ásvöllum í Hafnarfirði síðdegis í gær.
Tilkynning um slysið barst viðbragðsaðilum klukkan 17:10 og héldu viðbragðsaðilar strax á vettvang. Slysið varð syðst á Ásvöllum við bifreiðastæði á milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka. Drengurinn var þar á reiðhjóli þegar hann varð fyrir steypubíl.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.