Aukinn þungi er í árásum Ísraelshers á Gaza og hátt í fimm hundruð létust í loftárásum í nótt. Brýn þörf er á hjálpargögnum og læknir segir ungbörn og sjúklinga í bráðri hættu.
Farið verður yfir stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þá kemur framkvæmdastjóri UNICEF í settið en hún er nýkomin frá Jórdaníu þar sem hún var með systursamtökum af svæðinu.
Kvennaverkfall hefst á miðnætti í kvöld og viðbúið er að fjöldi kvenna og kvára um allt land muni leggja niður störf í sólarhring. Skólum, leikskólum, bönkum og sundlaugum verður meðal annars lokað og samfélagið lamast að hluta. Við verðum í beinni frá skiltagerð fyrir morgundaginn og förum yfir áhrif verkfallsins.
Gríðarlegur samdráttur er á framboði eftir nýju húsnæði hér á landi. Við förum ítarlega yfir málið og ræðum við formann borgarráðs og fasteignasala sem telur Seðlabankann halda markaðnum niðri. Auk þess heyrum við átakalega sögu stúlku sem lá í níu mánuði á spítala vegna átröskunar og kíkjum á bónda sem kvartar undan álftum sem éta uppskeruna hans.
Og í Íslandi í dag fer Sindri í morgunkaffi til Jóhönnu Vilhjálms en hún er komin í Bítið á ný eftir tuttugu ára fjarveru.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.