Hringborð norðurslóða hófst í Hörpu í dag í tíunda skipti. Þingið er umræðuvettvangur þjóðarleiðtoga og sérfræðinga um loftslagsbreytingar og tengsl þeirra við bráðnun jökla og framtíð úthafanna. Í setningarræðum í dag kom fram að loftslagsbreytingar séu allt að fjórum sinnum hraðari á norðurslóðum en annars staðar í heiminum. Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur var meðal þeirra sem hélt opnunarræðu. Hann segir alþjóðlegt samstarf í loftslagsmálum sjaldan eins brýnt og nú.
„Stríðið í Úkraínu og hræðilegar fjöldaárásir í Ísrael skapar hættu á að fleyg milli norðurs og suðurs á tíma sem við höfum þörf á enn meira samstarfi í loftslagsmálum en nokkurn tíma áður, segir Rasmussen.
Hann segir Hringborð norðurslóða því sjaldan hafa verið eins mikilvægt.
„Við lifum á erfiðum tímum og þess vegna var það svo nauðsynlegt að Ólafur Ragnar Grímsson skapaði vettvang þar sem fólk getur hist, í friði og rætt þróunina á norðurslóðum,“ segir Rasmussen.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var einnig meðal þeirra sem hélt opnunarræðu í dag. Hún er á sömu skoðun.
„Því miður er það þannig að friður er forsenda allra framfara og þessi skelfilegu stríðsátök hafa auðvitað þau áhrif að okkur miðar ekki jafn hratt áfram og við ættum að gera í loftslagsmálum,“ segir Katrín.
Hún segir mikilvægt að skilaboð frá þessum vettvangi nái til Loftlagsráðstefnu sameinuðu þjóðanna eða Cop 28 sem verður haldið í lok ársins.
„Það skiptir mjög miklu máli að það verði áþreifanlegar niðurstöður á þeim fundi. Ég held að þetta verði mjög mikilvægur fundur því það eru risavaxnar áskoranir. Fólkið í heiminum þarf að trúa því að við getum tekist á við loftslagsvánna og það er hægt,“ segir Katrín.

Átti fund með Bjarna
Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur notaði tækifærið á þinginu til að ræða við nýjan utanríkisráðherra hér á landi.
„Ég þekki Bjarna frá fyrri tíð því ég hef sjálfur sinnt öðrum embættum, svo sem verið fjármálaráðherra. Þannig að ég held að samstarfið við hann muni ganga vel,“ segir Rasmussen.