Tólf sóttu um embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem auglýst var laust til umsóknar í september síðastliðnum. Skipað verður í embættið til fimm ára frá 1. mars 2024.
Meðal umsækjenda eru nokkrir núverandi starfsmenn stofnunarinnar eins og Alma María Rögnvaldsdóttir og Andrea Klara Hauksdóttir. Þá sækir einnig um Jón Magnús Kristjánsson sem áður stýrði bráðamóttöku Landspítalans. Þá sækir einnig um sveitarstjóri Tálknafjarðar, Ólafur Þór Ólafsson og Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, sérfræðingur, sækir einnig um en hún var starfandi forstjóri Landspítala þegar Páll Matthíasson hætti sem forstjóri spítalans.
Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS), fékk ekki áframhaldandi samning sem forstjóri. Hann hefur stefnt ríkinu og Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra vegna ólögmætrar uppsagnar. Málið hefur fengið flýtimeðferð þannig að ráðherra er nokkur vandi á höndum.
Heilbrigðisráðherra mun skipa í embættið að undangengnu mati nefndar sem skipuð er samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og hefur það hlutverk að meta hæfni umsækjenda um stöður forstjóra heilbrigðisstofnana.
Listi yfir alla umsækjendur:
- Alma María Rögnvaldsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar
- Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri
- Borghildur F. Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri
- Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, sérfræðingur
- Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Norðurlandi
- Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur
- Kristbjörn Bjarnason, fv. innkaupastjóri
- Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóri
- Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri
- Sigurður Bjarni Hafþórsson, fjármálastjóri
- Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri og eigandi, stjórnarmaður
- Þröstur Óskarsson, sérfræðingur