Þetta segir í nýbirtum árshlutareikningi. Þar segir jafnframt að vaxtatekjur sjóðsins hafi numið 39.105 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins samanborið við 36.307 milljónir króna á sama tíma á síðasta ári. Hreinar vaxtatekjur hafi aukist á milli tímabila úr -12.745 milljónum króna í -11.855 milljónir króna.
Ríkissjóður gæti þurft að greiða strax á næsta ári
Uppgreiðslur útlána hafi haldið áfram að dragast saman á fyrstu sex mánuðum ársins. Uppgreiðslur hafi almennt neikvæð áhrif á þróun vaxtatekna og auka endurfjárfestingaráhættu. Í áætlunum sjóðsins sé hins vegar gert ráð fyrir að uppgreiðslur séu nýttar til að greiða af skuldum og því kunni áframhaldandi samdráttur í uppgreiðslum að fela í sér þörf á að ríkissjóður endurgreiði ÍL-sjóði fyrr en ella hluta þeirra lána sem hann tók hjá sjóðnum á árunum 2020 og 2021, jafnvel strax á næsta ári.
ÍL-sjóður veitti ríkissjóði lán að fjárhæð 190 milljarðar króna frá upphafi árs 2020.
ÍL-sjóður varð til við uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og var stofnaður með lögum sem tóku gildi 31. desember 2019. Fjármála- og efnahagsráðherra fer nú með yfirstjórn ÍL-sjóðs og hefur yfirumsjón með úrvinnslu og uppgjöri eigna og skulda sem ÍL-sjóður tók við í uppskiptingunni og er þar um að ræða útgefnar skuldir sjóðsins, eldra útlánasafn auk verðbréfa- og innlánasafns.