Landsleikur Belgíu og Svíþjóðar í undankeppni EM í fótbolta fór fram í Brussel í gærkvöldi og voru Svíarnir tveir, sem skotnir voru til bana, klæddir sænsku landsliðstreyjunni.
Árásarmanninum tókst að flýja af vettvangi og stóð víðtæk leit að honum yfir í alla nótt. Nú undir morgun var svo staðfest að lögreglan hefði haft hendur í hári mannsins, til skotbardaga kom og lést árásarmaðurinn þar af sárum sínum.
Hættustigið í Brussel var, í kjölfar árásarinnar, sett á hæsta stig og sömuleiðis hertu stjórnvöld í Frakklandi eftirlit sitt við landamærastöð sína að Belgíu.
Landsleikur Frakklands og Skotlands fer fram í Lille í kvöld. Lille er í aðeins um 100 kílómetra fjarlægð frá Brussel og hafa yfirvöld í Frakklandi ákveðið að herða öryggisgæsluna, í tengslum við leikinn og í kringum völlinn, til muna.
Þetta staðfestir innanríkisráðherra Frakklands, Gérald Darmanin, í samtali við RTL en aðeins eru nokkrir dagar síðan að hættustig var sett á hæsta stig í landinu.
Það var gert í kjölfar þess að árásarmaður lét til skarar skríða í Gambetta-framhaldsskólanum í bænum Arras í Frakklandi.
Árásarmaðurinn var fyrrum nemandi við skólann en hann notaði hníf við verknað sinn sem varð kennara við skólann að bana.