Þetta er meðal þess sem fram kom í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem Albert var gestur. Þar fer hann yfir upptök átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs og langa sögu þeirra.
Eins og greint hefur verið frá hefur Ísraelsher safnað hundruð þúsundum hermanna við Gasaströndina. Ekkert hefur verið gefið upp um hvenær herinn hyggst ráðast þar inn en sagt hefur verið að það verði gert í landi, úr lofti og af sjó. Beðið sé tilmæla frá Ísraelsstjórn.
„Manntjón Ísraelsmanna er meira en nokkru sinni meira. Hernaðurinn á Gasa, hvernig hann þróast, hversu mikið mannfallið verður, það mun hafa áhrif á framhaldið og hvort að þessi átök muni breiðast út,“ segir Albert. Hann segir óhjákvæmilegt að Gasaströnd verði hernumin í aðgerðum Ísraelshers.
Þýða í samskiptum
Albert segir ljóst að árás Hamas liða síðastliðnu helgi, þar sem 1300 Ísraelsmanna láu í valnum, bendi til þess að Hamas liðar hafi verið farnir að fyllast örvæntingu yfir eigin stöðu og fréttum af þýðu á milli Ísraela og annarra Arabaríkja, líkt og Sádí-Arabíu.
„Þannig að þessi heiftarlega og hrottafengna árás. Það er allt lagt undir greinilega og það er margt sem bendir til þess að þeir telji að það sé að fjara undan þeim. Það er mikið á sig lagt og til þess hygg ég, allavega til þess að eyðileggja þetta ferli, láta Sádana hrökkva frá og búa til stöðu þar sem Ísraelsmenn hafi þurft að bregðast mjög harkalega við.“