Rigningin byrjaði í síðustu viku og íbúar Derna fóru þá út á götu þar sem börn léku sér í pollum. Rigning er ekki svo tíð á þessu svæði. Vatn byrjaði að safnast fyrir í uppistöðulónum tveimur stífla í fjöllunum yfir borginni en stíflurnar gáfu sig á sunnudaginn.
Flóðbylgjan sem skall á borginni er talin hafa verið rúmlega sjö metra há og sópaði hún heilu hverfunum út á haf.
Borgarstjóri Derna segir að miðað við húsin sem hrundu eða ráku á brott, sé líklegt að milli átján og tuttugu þúsund manns hafi dáið. Það mun þó taka mikinn tíma að varpa ljósi á raunverulegan fjölda látinna ef það verður yfir höfuð hægt.
Abdulmenam al-Ghaithi, borgarstjórinn, segist óttast að sjúkdómar muni byrja að herja á borgarbúa á næstu dögum, vegna allra líkanna sem liggja í vatninu sem situr eftir og rústunum í Derna.
Hægt að koma í veg fyrir hamfarirnar
Í frétt Washington Post er haft eftir embættismönnum frá Sameinuðu þjóðunum að hægt hefði verið að koma í veg fyrir hamfarirnar eða í það minnsta bregðast betur við þeim.
Petteri Taalas, yfirmaður Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, sagði blaðamönnum að yfirvöld eða einhvers konar veðurstofa hefðu getað gefið út einhverja viðvörun og reynt að flytja fólk á brott. Þannig hefði verið hægt að koma í veg fyrir flest dauðsfallanna.
Töluverð óöld ríkir í Líbíu og hefur gert um árabil. Tvær ríkisstjórnir keppast um völd þar og stjórna sitthvorum hluta landsins. Derna heyrir undir ríkisstjórn herforingjans Khalifa Haftar, sem stjórnar austurhluta landsins. Sú ríkisstjórn er ekki viðurkennd af Sameinuðu þjóðunum.
Í gegnum árin hefur ástandið í Derna verið sérstaklega óreiðukennt og hafa mismunandi fylkingar stjórnað borginni. Um tíma var hún undir stjórn vígamanna Íslamska ríkisins.
Í frétt Reuters segir að embættismenn í ríkisstjórn Haftars hafi kallað eftir því að hamfarirnar verði rannsakaðar og kannað verði hvort einhver beri ábyrgð á þeim og þá hver.
Einhverjir hafa bent á það að sérfræðingar vöruðu við því í fyrra að stíflurnar þyrftu viðhald sem fyrst.
Death toll from catastrophic flooding in Libya s eastern city of Derna could reach 20,000.
— Nahel Belgherze (@WxNB_) September 13, 2023
An absolute tragedy. pic.twitter.com/D0oaz1bl6z
Óöldin sögð koma niður á hjálparstarfi
Hjálp hefur borist til Líbíu frá Egyptalandi, Túnis, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Tyrklandi, Katar og Ítalíu, svo einhver ríki séu nefnd. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur einnig gefið út að læknar og lyf verða send til landsins.
Tyrkir hafa sent tvö færanleg neyðarsjúkrahús og Ítalir hafa sent þrjár flugvélar með birgðir og hjálparstarfsmenn og tvö herskip með birgðir. Áhöfnum þeirra gekk illa að koma birgðunum á land, þar sem höfn Derna er full af braki og nánast ónothæf.
Reuters segir áðurnefnda óöld í Líbíu þó hafa komið niður á hjálparstarfinu.
