Eins og frægt er dó auðjöfurinn og stríðsherrann, sem rak málaliðahópinn Wagner Group, í síðustu viku þegar einkaflugvél hans féll til jarðar skammt frá Moskvu. Aðrir leiðtogar Wagner voru um borð en talið er að mennirnir hafi verið myrtir og að flugvélin hafi verið skotin niður eða að sprengju hafi verið komið fyrir um borð.
„Fyrir þá sem er að tala um hvort ég sé á lífi eða ekki, hvernig ég hef það, þá er helgi núna í seinni helming ágúst 2023. Ég er í Afríku,“ sagði Prigósjín í myndbandinu. Þá staðhæfði hann að hann hefði það fínt.
„Það er allt í lagi.“
Myndbandið var birt á Telegram á rás sem tengist málaliðahópnum en í frétt Reuters segir að klæðnaður hans sé sambærilegur þeim sem hann var í á öðru myndbandi sem hafði verið birt áður. Þar segir einnig að myndbandið hafi líklega verið tekið upp 19. eða 20. ágúst, nokkrum dögum áður en Prígósjín dó.
Yfirvöld í Moskvu þvertaka fyrir að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hafi látið bana Prígósjín en segja mögulegt að flugvélinni hafi verið grandað.
Spjótin beinast að Pútín vegna uppreisnar Prígósjíns gegn Pútín og forsvarsmönnum varnarmálaráðuneytis Rússlands í sumar. Auðjöfurinn samdi um frið við Pútín en varði sínum síðustu dögum á flakki um heiminn og reyndi að halda lífi í viðskiptaveldi sínu í Afríku og Mið-Austurlöndum.
Hann er svo sagður hafa farið til Moskvu til að reyna að koma í veg fyrir að varnarmálaráðuneytið tæki yfir málaliðahópinn. Skömmu eftir flugtak frá Moskvu féll flugvélin svo til jarðar.