Hinn tvítugi Fati hefur fallið neðar í goggunarröðinni hjá Barcelona og félagið þarf að losa pláss í hópnum til að geta fengið Joao Cancelo á láni frá Englandsmeisturum Manchester City.
Fati, sem er fæddur í Gínea-Bissá en hefur leikið fyrir spænska landsliðið, er af mörgum talinn einn efnilegasti leikmaður heims. Árið 2021 skirfaði hann undir nýjan samning við Barcelona sem gildir til ársins 2027 og felur í sér klásúlu sem segir að reiða þurfi fram einn milljarð evra til að losa leikmanninn undan samningnum. Það samsvarar 143 milljörðum íslenskra króna.
Hann virðist nú vera á leið til Brighton á láni út tímabilið. Lánssamningurinn kveður ekki á um að Brighton þurfi að kaupa leikmanninn og enska úrvalsdeildarfélagið mun greiða stóran hluta af launum leikmannsins.
🚨 Ansu Fati to Brighton is HERE WE GO done! ✍️🇪🇸
— Transfer News Live (@DeadlineDayLive) August 31, 2023
The English club will take a large part of his salary. 🤝
Loan without option to buy. 💰
(Source: @FabrizioRomano ) pic.twitter.com/TA89W720KD
Brighton er ekki eina liðið sem hefur haft áhuga á því að fá Fati í sínar raðir. Lundúnaliðin Tottenham og Chelsea eru einnig sögð hafa verið áhugasöm, en leikmaðurinn valdi Brighton eftir að hafa séð liðið spila undir stjórn Roberto de Zerbi.
Fati er sem áður segir aðeins tvítugur að aldri en á að baki 80 deildarleiki fyrir Barcelona þar sem hann hefur skorað 22 mörk. Þá hefur hann einnig skorað tvö mörk í níu leikjum fyrir spænska landsliðið.